Lokaþáttur Nágranna, kórahátíð og Silja Bára lesandinn

Síðasti þáttur sápuóperunnar áströlsku Neighbours eða Nágrannar, var tekin upp síðasta föstudag og er þá lokið 37 ára sögu þáttanna. Það ríkir sorg hjá aðdáendum þáttanna og færsla á facebook vakti athygli okkar í Mannlega þættinum en þar tjáir rúmlega þrítug kona, Agnes Wild, tilfinningar sínar um þessi tíðindi og mátti sjá tár á hvarmi hennar, en hún hefur horft á þættina síðan hún var 14.ára, s.s. alla þætti sem sýndir hafa verið eftir að hún byrjaði að horfa. Framleiðandinn Jason Herbison tilkynnti að margir leikarar myndu snúa aftur í þessari síðustu þáttaröð til að leika sín gömlu hlutverk. Agnes kom í þáttinn og sagði okkur frá sinni ást á Grönnum í dag. Dagana 27.júní - 2.júlí verða tveir stórviðburðir samtengdir hér í Reykjavík; NORDKLANG, norræn kórahátíð, og fagráðstefna norrænna kórstjóra. Þessir viðburðir eru haldnir á 3gja ára fresti í einu Norðurlandanna og eru nú í fyrsta sinn haldnir hér á landi. Opnunartónleikar verða í Norðurljósasal Hörpu 27. júní þar sem 6 af fremstu kórum landsins kynna íslenska kórtónlist fyrir fagfólki Norðurlandanna. Lokatónleikar verða svo í Eldborgarsal Hörpu 2. júlí þar sem kórfólk í 9 mismunandi vinnusmiðjum, undir stjórn færustu kórstjóra Norðurlandanna flytja þá tónlist sem unnið hefur verið að á hátíðinni. Margrét Bóasdóttir formaður Landsambands blandaðra kóra, sagði okkur meira frá þessum viðburðum í þættinum. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Silja Bára Ómarsdóttir, nýr formaður Rauða krossins á Íslandi og prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Við forvitnuðumst um nýja starfið hennar og svo fengum við auðvitað að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. Þar komu við sögu Margaret Atwood, Stefan Zweig, Guðrún Helgadóttir og fleiri. --------------- Tónlist í þættinum í dag: Neighbours Theme song / Barry Crocker (Tony Hatch & Jackie Trent) Sölvi Helgason / Mannakorn (Magnús Eiríksson) Litla Gunna og Litli Jón / Hljómsveit Ingimars Eydal (Páll Ísólfsson, Davíð Stefánsson) UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

Om Podcasten

Um litróf mannlífsins. Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.