Styrkir til rannsókna, landnámsskáli og persónuleikar á vinnustað

Við fræddumst um Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins í þættinum í dag, en í síðustu viku var úthlutað í sjötta sinn úr sjóðnum. Veittir voru styrkir til 13 rannsókna að upphæð 68 milljóna króna. Þar af voru fjórir styrkir til nýrra rannsókna og níu framhaldsstyrkir til rannsókna sem áður hafa fengið styrk úr sjóðnum. Við fengum Ragnheiði Haraldsdóttur, formann sjóðsins, og Valtý Stefánsson Thors, styrkþega, til að koma í þáttinn í dag. Valtýr vinnur rannsókn sem miðar að því að meta hve hratt ónæmiskerfi barna nær styrkleika eftir krabbameinsmeðferð og hvenær besti tíminn er til að bólusetja þau svo hámarka megi vernd gegn sýkingum. Fornminjafélag Súgandafjarðar er að byggja landnámsskála sem verður tileinkaður Hallvarði súganda landnámsmanni í Súgandafirði. Skálinn er tilgátuhús byggt á fornleifauppgreftri á Grélutóftum í Arnarfirði. Markmið byggingarinnar er m.a. að kenna handbragðið, byggja hús í anda landnema Íslands og heiðra sögu og byggingararf þjóðarinnar. Eyþór Eðvarðsson er formaður fornminjafélags Súgandafjarðar, hann kom í þáttinn og sagði okkur nánar frá þessu verkefni. Svo fengum við Valdimar Þór Svavarsson í þáttinn, en hann er með okkur á þriðjudögum í júní og þetta var því hans þriðja innkoma í þáttinn. Fyrst talaði hann um meðvirkni, svo fræddi hann okkur um hvað hefði mest áhrif á starfsánægju fólks á vinnustöðum. Í dag ræddi hann við okkur um mismunandi persónuleika fólks á vinnustað. Sem sagt persónuleikapróf sem getur gefið góða vísbendingu um það hvernig fólki mun ganga að vinna saman. Valdimar útskýrði þetta betur fyrir okkur í dag. ---------------- Tónlist í þættinum í dag: Týnda kynslóðin / Bjartmar Guðlaugsson Sykiyaki / Kyu Sakamoto Darling Be Home Soon / Lovin Spoonful UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

Om Podcasten

Um litróf mannlífsins. Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.