Kristalsnóttin, sýnagógurnar og gettóin

Í þriðja þætti liggur leið okkar til Þýskalands Nazismans. Við kynnumst menningu gyðinga í Evrópu sem hefur um aldir mátt sæta ofsóknum en menningararfinum var, eins og þjóðinni sjálfri, nær útrýmt í Helför seinni heimsstyrjaldarinnar. Við skoðum Kristalsnóttina 1938 sem olli gríðarlegri eyðileggingu á byggingararfleifð gyðinga og telja má að marki upphafið af stigvaxandi skipulögðum ofsóknum á hendur þeim í Þriðja ríki Hitlers. Sumar byggingar hafa síðar verið endureistar og endurgerðar en hinu litla sem eftir stendur er enn búin hætta sökum uppgangs þjóðernishyggju, rasisma og gyðingahaturs í Evrópu síðustu ár. Umsjón: Hilmar Hildar Magnúsarson. Lesarar í þættinum ásamt Hilmari: Júlía Margrét Einarsdóttir, Kristófer Rúnar Kvaran og Sigríður Birna Valsdóttir. Tæknistjórn/samsetning: Lydía Grétarsdóttir.

Om Podcasten

Í þáttunum skoðar umsjónarmaður eyðingu mannvirkja og umhverfis í átökum ólíkra hópa, á ólíkum tímum í sögunni. Við kynnumst byggingarlistinni sem táknmynd menningar og skotmarki menningarhreinsana. Við könnum hlutskipti hennar í hryðjuverkum, byltingum, landvinningastríðum og við aðskilnað samfélaga. Við kynnumst líka byggingarlistinni sjálfri. Fegurðinni. Tækninni. Notagildinu. Þessum þremur grunnstoðum arkitektúrsins sem rómverski arkitektinn og fræðimaðurinn Vítrúvíus skrifaði um á fyrstu öld fyrir Krist. Umsjón: Hilmar Hildar Magnúsarson.