Sagan af Mosku Babúrs keisara

Í þessum fyrsta þætti Blóði drifinnar byggingarlistar höldum við til Indlands og lítum á hvernig aldalangar erjur hafa mótað þetta gríðarstóra og flókna samfélag fram á okkar daga. Við skoðum landvinninga íslamskra höfðingja, þjóðernishyggju hjá hindúum og nýlendustefnu breska heimsveldisins. En við dveljum einkum við hryggilega sögu einnar tiltekinnar byggingar, Mosku Babúrs keisara, og reynum að lesa í áhrif hennar á Indland og alþjóðasamfélagið. Umsjón: Hilmar Hildar Magnúsarson. Lesari í þættinum: Lesari í þættinum með Hilmari er Sigríður Birna Valsdóttir. Tæknistjórn/samsetning: Lydía Grétarsdóttir.

Om Podcasten

Í þáttunum skoðar umsjónarmaður eyðingu mannvirkja og umhverfis í átökum ólíkra hópa, á ólíkum tímum í sögunni. Við kynnumst byggingarlistinni sem táknmynd menningar og skotmarki menningarhreinsana. Við könnum hlutskipti hennar í hryðjuverkum, byltingum, landvinningastríðum og við aðskilnað samfélaga. Við kynnumst líka byggingarlistinni sjálfri. Fegurðinni. Tækninni. Notagildinu. Þessum þremur grunnstoðum arkitektúrsins sem rómverski arkitektinn og fræðimaðurinn Vítrúvíus skrifaði um á fyrstu öld fyrir Krist. Umsjón: Hilmar Hildar Magnúsarson.