#21 Vaxtarverkir í stað samdráttar

Atvinnulíf í Ísafjarðarbæ hefur breyst mikið á undanförnum árum og mannlífið með því. Áður fyrr var það fremur einhæft og háð duttlungum náttúrunnar, jafnvel einangrað, en þó að sjávarútvegur sé þar enn ein helsta stoðin, þá hafa fleiri bæst við. Þar munar sjálfsagt mestu um fiskeldi á Vestfjörðum, auk þess sem samgöngubætur hafa gerbreytt stöðunni. Fjölbreytnin hefur einnig aukist, þannig að fólk hefur flust á svæðið í auknum mæli, enda nóga vinnu að fá og rými til nýsköpunar. Fyrir vikið hefur fasteignaverð hækkað ört og nýbyggingar á húsnæði í fyrsta sinn í mannsaldur. Það var viðeigandi að fá þá Runólf Ágústsson, verkefnastjóra á Flateyri, og Daníel Jakobsson, fráfarandi oddvita sjálfstæðismanna í bæjarstjórn sem hefur mörg járn í eldinum önnur, til þess að ræða um gróskuna í nýsköpunarsetrinu Skúrinni. Daníel segir gefandi að hætta í bæjarstjórn þegar vandamálin felist í vaxtarverkjum og sókn frekar en samdrætti og vörn, en Runólfur segir tækifærin óþrjótandi.

Om Podcasten

Laugardaginn 14. maí fara fram sveitarstjórnakosningar um land allt í 69 sveitarfélögum. Í Dagmálum Morgunblaðsins er fjallað sérstaklega um aðdraganda kosninganna, skipun framboðslista og stöðu í einstökum sveitarfélögum. Umsjón með kosningaumfjöllun Dagmála hafa blaðamennirnir Andrés Magnússon, Stefán Einar Stefánsson og Karítas Ríkharðsdóttir, sem fara um landið og taka stjórnmálamenn og álitsgjafa tali fyrir hlaðvarpið, auk þess sem góðir gestir koma í streymisþætti Dagmála.