All the Things She Said – Hlaðnara en demantanáma

Það er við hæfi að fíla lag frá Rússlandi í dag. Og ekkert venjulegt lag. Um er að ræða stærsta smell t.A.T.u, nu-metal popp-gúmmelaði með þjóðdansa-kviðristum. Lag sem er hlaðnara af orku en óopnaður Monster í kælinum við kassann í Elko. En hvaðan kemur þessi rosalega orka sem heyra má í t.A.T.u? Það spilar að sjálfsögðu inn í að flytjendurnir, þær Lena Katina og Júlía Volkóva, eru rússneskar – og Rússland er afar hlaðið land og illskiljanlegt. Þar er að finna geysimörg þjóðarbrot og saga þess er full af stríðum, árekstrum og ofbeldi, en líka stórbrotnum listum og vísindaafrekum. En ætlunin í dag er ekkert endilega að skilja Rússland, þó að einhverjar línur séu dregnar fram, heldur fyrst og fremst að halla sér aftur í stólnum og djúpfíla. All the Things She Said, gjörið svo vel!

Om Podcasten

Fílalag er hlaðvarp um tónlist. Á hverjum föstudegi senda þeir Snorri Helgason og Bergur Ebbi frá sér nýjan þátt þar sem dægurlag er tekið fyrir og fílað í ræmur. Í fíluninni felst að greina menningarleg fyrirbæri sem eru kynnt í laginu, tískustrauma í hljómi og tíðaranda í framsetningu. Farið er um víðan völl og fjallar þátturinn um poppmenningu í stærra samhengi. Um málið er ekkert meira að segja. Fílið þetta bara og fokk svo off.