Call On Me – Graður Svíi penslar

Í fílun dagsins er farið í skemmtilegt ferðalag um vegi poppsins. Eric Prydz heitir listamaðurinn sem er til umfjöllunar. Ef maður myndagúglar Prydz, sem er sænskur plötusnúður með sterkan rave-bakgrunn, fær maður upp mynd af hálf-miðaldra manni með Audda Blö húfu og skegghýjung. Og árið 2004 var árið hans. Þá gaf hann út lagið sitt, Call on Me, sem notar sampl úr laginu Valerie sem sungið var af Steve Winwood árið 1982. En Steve Winwood er ein af hetjum bresku sexunnar og var til dæmis orðinn meðlimur í Spencer Davis Group þegar hann var fjórtán ára. Winwood átti síðar eftir að spreyja yfir Gullbylgjuna með bæði sjöu- og áttu-hitturum og er Valerie í þeim flokki. En þessi 2004-negla, sem hér er til fílunar, er einskonar samantekt á poppsögunni Um er að ræða ungæðislega froðu, skreytta með trixum síns tíma. Prydz finnur leið til að kreista eins mikla stemningu út úr melodíunni og hægt er. Hann finnur sjálfan greddu-elixírinn. Lagafílun verður ekki skýrari. Hægt væri að trylla inn gettóblaster á Líkdeild Landspítalans í Fossvogi og jafnvel hinir dauðu mundu rugga sér í lendunum við að heyra þann mulning sem hér er borinn á borð. Njótið. Fílið.

Om Podcasten

Fílalag er hlaðvarp um tónlist. Á hverjum föstudegi senda þeir Snorri Helgason og Bergur Ebbi frá sér nýjan þátt þar sem dægurlag er tekið fyrir og fílað í ræmur. Í fíluninni felst að greina menningarleg fyrirbæri sem eru kynnt í laginu, tískustrauma í hljómi og tíðaranda í framsetningu. Farið er um víðan völl og fjallar þátturinn um poppmenningu í stærra samhengi. Um málið er ekkert meira að segja. Fílið þetta bara og fokk svo off.