Jack & Diane – Svo basic að það blæðir

Tottið chili-pylsu og troðið henni í svöðusár frelsarans. Lífið heldur áfram löngu eftir að það hættir að vera spennandi. Í dag verður farið inn í Kjarnann. Haldið ykkur fast. Fyrst smá formáli. Fílalag hefur þrisvar sinnum fjallað um Bruce Springsteen, meðal annars í fyrsta þættinum sínum. Ástæða þess að Springsteen er svo hátt skrifaður hjá Fílalag (og raunar í tónlistarblaðanördasamfélaginu almennt) er vegna þess að hann er ósvikinn. Hann er ekki að reyna að vera neinn annar – Sprinsteen (eða Steini eins og við köllum hann) er ekki aðeins frumlegur heldur beinlínis frumstæður í einfaldleika sínum. Textar eftir Steina segja hlutina á mannamáli. Hann er engum líkur. Eða hvað? Er hægt að vera meiri Steini en Springsteen sjálfur? Er hægt að vera meira basic, fara dýpra inn í kjarnann? Er hægt að steingerva heartland-rokkið, hjartlands-steininn, meira en sjálfur Steini? Já. Það var gert árið 1982 af John Mellencamp. Heyrn er sögu ríkari. Jack & Diane. Svo basic að það blæðir. Troðið ykkur í gallabuxur, sótbláar, klæðið ykkur í himinn ryðríkisins. Þú stendur að morgni og heilsar laufguðum trjám. Þú gerir það sem þig lystir meðan söngur fugla heyrist. Þú gerir þitt besta, og lífið heldur áfram.

Om Podcasten

Fílalag er hlaðvarp um tónlist. Á hverjum föstudegi senda þeir Snorri Helgason og Bergur Ebbi frá sér nýjan þátt þar sem dægurlag er tekið fyrir og fílað í ræmur. Í fíluninni felst að greina menningarleg fyrirbæri sem eru kynnt í laginu, tískustrauma í hljómi og tíðaranda í framsetningu. Farið er um víðan völl og fjallar þátturinn um poppmenningu í stærra samhengi. Um málið er ekkert meira að segja. Fílið þetta bara og fokk svo off.