Bönnuð jól
Una Margrét Jónsdóttir fjallar um nokkur tímabil þegar jól hafa verið bönnuð í tilteknum löndum. Á valdatíma púrítana í Englandi 1644-1660 var bannað að halda jól þar sem púrítanar töldu að þau væru ekki kristileg. Í Sovétríkjunum og á Kúbu á 20. öld voru jólin bönnuð af því að þau þóttu ekki samrýmast kommúnískum lífsskoðunum, auk þess sem þessi frídagur minnkaði vinnuframlag borgaranna. Lesið verður úr dagbók Johns Evelyn sem var uppi á valdatíma púrítana í Englandi á 17. öld, en hann var handtekinn fyrir að vera viðstaddur ólöglega jólamessu. Einnig verður lesin frásögn Raisu Trushevsku um upplifun hennar af jólabanninu í Sovétríkjunum, en Raisa fæddist í Úsbekistan 1948. Þá verður rætt við Tamilu Gamez Garcell, en hún er fædd á Kúbu 1974 og kynntist ekki jólum fyrr en hún fluttist til Íslands. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir og lesarar eru Baldur Trausti Hreinsson, Jórunn Sigurðardóttir og Bozhena Zemova.