Síðasta lag fyrir myrkur - Farþeginn

Síðasta lag fyrir myrkur er... Farþeginn Hjalti Snær Ægisson bókmenntafræðingur leiðir okkur inn í kvöldið með bókum, sögum, sagnfræði og tónlist í bókmenntahlaðvarpi Bókasafns Hafnarfjarðar, einn eða með góðum gestum. Sestu í uppáhaldsstólinn þinn, helltu upp á kaffi og komdu með.  Þýski rithöfundurinn Ulrich Alexander Boschwitz (1915–1942) sendi aðeins frá sér tvær skáldsögur á stuttri ævi. Sú fyrri kom út á sænsku árið 1937 undir dulnefni, en Farþeginn birtist á ensku árið 1939, fyrst í Englandi og síðan Bandaríkjunum. Fáeinum árum síðar kom út frönsk þýðing bókarinnar. Sagan var skrifuð skömmu eftir Kristalsnóttina í nóvember 1938 og segir frá gyðingi í Berlín, kaupsýslumanninum Otto Silbermann, sem hefur flúið heimili sitt og reynir eftir bestu getu að sleppa frá heimalandi sínu. Þótt Farþeginn væri skrifaður á þýsku fékkst bókin á sínum tíma ekki útgefin í Þýskalandi. En eftir að upprunalegt handrit kom í leitirnar árið 2018 var ekki eftir neinu að bíða. Útgefandinn Peter Graf fór yfir handritið og ritaði upplýsandi eftirmála um verkið. Bókin var lofuð hástöfum í þýskum fjölmiðlum og borin saman við framúrskarandi skáldverk um tímabil nasismans, enda sennilega eitt allra fyrsta verkið til að lýsa örlögum þýskra gyðinga.  

Om Podcasten

Rabbrýmið er opið hlaðvarpsstúdíó Bókasafns Hafnarfjarðar þar sem bækur og blaður hittast yfir hangandi hljóðnemum og allir eru til í spjall. Rýmið er opið öllum þeim sem eru með gilt bókasafnskort og er hægt að panta upptökutíma á bit.ly/rabbrymid Í Rabbrýminu er allur búnaður sem þarf til upptöku og vinnslu hlaðvarps til staðar. Fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref er starfsfólk til staðar til að fara yfir formsatriðin og aðstoða fyrst um sinn. Skúffuskáld, skoðanapésar, grúskarar, bókabéusar og allir þeir sem hafa ótakmarkaða þörf til að koma sér út í kosmósið - þið eruð hjartanlega velkomin í Rabbrýmið. Fyrir upplýsingar um aðstöðuna og aðrar spurningar ekki hika við að senda tölvupóst á hladvarp@hafnarfjordur.is