Horft til framtíðar - Vörður

Gestir þáttarins eru þau Hildur Grétarsdóttir, gæðastjóri og Ágúst Mogensen, sérfræðingur í forvörnum en bæði sitja þau í sjálfbærniteymi Varðar. Þau segja okkur frá þeirri sjálfbærnivegferð sem Vörður hefur verið í síðasta rúma áratuginn. Við spjöllum um hvernig vegferðin hófst með grasrótarstarfi innan Varðar og hvernig hún þróaðist fljótt í að vera stór hluti af stefnumótun fyrirtækisins. Fyrirtækið áttaði sig fljótt á mikilvægi þess að einblína ekki einungis á umhverfið heldur sjálfbærni í víðara samhengi, með áherslu á samfélagslega ábyrgð. Að því sögðu fékk Vörður jafnlaunavottun fyrst fjármálafyrirtækja árið 2014 og setti sér stefnu um samfélagslega ábyrgð árið 2015. Eins og Ágúst kemst svo vel að orði er mikilvægt að fyrirtæki hafi það í huga að þegar kemur að sjálfbærnimálum er ekki tjaldað til einnar nætur. Vinnan skuli unnin af myndarskap með öryggi, heilsu og sjálfbærni að leiðarljósi.

Om Podcasten

Hér fjöllum við um grænar umbyltingar og breytta stjórnunarhætti sem eru að eiga sér stað í íslensku atvinnulífi og allt í kringum okkur. Við segjum meðal annars frá stjórnendum sem eru að ryðja brautina og leiða fyrirtæki í áttina að sjálfbærara og vistvænna samfélagi.