Jafningjastuðningur á geðsviðinu og monsúnvindar og sumarkuldi í veðurspjallinu
Alþjóðleg ráðstefna um geðhvörf stendur nú yfir í Hörpu og við fjölluðum í dag um nýja nálgun á geðsviði sem er aukið samstarf á milli geðheilbrigðisstarfsfólks og jafningja með eigin reynslu af geðsjúkdómum. Nína Eck, félagsráðgjafi hjá Geðhvarfateymi Landspítala og fyrrum notandi geðheilbrigðisþónustu, kom í þáttinn, en hún hefur tekið þátt í að innleiða jafningjastuðning í Geðþjónustu Landspítalans. Með henni kom Guðmunda Arnardóttir, kennari í Bataskóla í Kaupmannahöfn og einn höfunda bókarinnar Geðhvörf fyrir byrjendur. Þær sögðu okkur meira frá jafningjastuðningnum og til dæmis því sem kallað er bjargráð. Einar Sveinbjörnsson var svo hjá okkur í veðurspjallinu í dag. Í dag fjallaði hann um monsúnvinda, almennt séð en einkum þann þekktasta í Indlandi. Þeir hafa skilað miklum rigningum í sumar, til góðs fyrir uppskeru á þessu svæði þar sem um fjórðungur mannkyns býr, en líka til ills því mannskæð flóð hafa fylgt, nú síðast í Nepal. Svo talaði Einar aðeins meira um sumarhitann hér á landi, nú þegar Veðurstofusumrinu er formlega lokið. Það hefur ekki verið kaldara í Reykjavík frá árinu 1992. Svo í lokin fór Einar aðeins yfir langtímahorfurnar þar sem veðurfyrirbærið fyrirstöðuhæð kom við sögu. Tónlist í þættinum: Here Comes the Sun / The Beatles (George Harrison) Yo canto, canto por amor / Lissete Hernandez Piqueras (Egill Ólafsson og Lissete Hernandez Piqueras) Poor Boy / Nick Drake (Nick Drake) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON