Kristín Þóra föstudagsgestur og litlir matarmarkaðir í matarspjallinu
Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Kristín Þóra Haraldsdóttir leikkona. Síðan hún útskrifaðist sem leikkona hefur hún leikið fjölda hlutverka bæði á sviði og fyrir framan myndavélina og ávallt hefur hennar frammistaða vakið eftirtekt. En svo er það sýningin sem hún bjó til, Á rauðu ljósi, þar sem hún er ein á sviðinu í Þjóðleikhúskjallaranum og fjallar um eigin reynslu, af stressi, streitu og því að keyra sig í þrot. Þar fjallar hún á bráðfyndinn hátt um þessa erfiðu reynslu, en einnig af slíkri einlægni að það snertir virkilega við áhorfendum og nú er hún farin að flytja einnig erindi um þessa reynslu. Við fengum Kristínu auðvitað til að segja okkur aðeins frá því hvernig þessi sýning hefur sprungið út og svo fórum við auðvitað með henni aftur í tímann á æskuslóðirnar, í Skotlandi, Englandi og Hlíðunum og röktum okkur svo í gegnum lífið til dagsins í dag. Sigurlaug Margrét var svo með okkur í matarspjallinu í beinni útsendingu frá suður Evrópu. Hún sagði okkur frá litlum sveitamörkuðum og frönskum kartöflum í þetta sinn. Tónlist í þættinum í dag: Vor í Vaglaskógi / Vilhjálmur Vilhjálmsson (Jónas Jónasson, texti Kristján frá Djúpalæk) Freedom / Wham (George Michael) I Wanna Dance With Somebody / Whitney Houston (George Merrill & Shannon Rubicam) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON