Stóri plokkdagurinn, skólagangan í dægurtextum og póstkort frá Magnúsi

Á sunnudaginn mun forseti Íslands setja Stóra plokkdaginn og svo verður haldið upp á daginn um allt land með tilheyrandi plokki. Stóri plokkdagurinn hefur verið haldinn frá árinu 2018 og hefur hann vaxið og dafnað síðan. Fólk er hvatt til að skipuleggja plokk í sínu nágrenni, eða bara hvar sem er með því að sameinast í útiveru og plokka rusl. Rótarý hreyfingin, í samstarfi við Landsvirkjun og Umhverfisráðuneytið standa að Stóra plokkdeginum og til okkar komu í dag þau Jón Karl Ólafsson, forseti Rótarý hreyfingarinnar á Íslandi og Elín Birna plokkari á Eyrarbakka, sem verður sérstakur gestur setningarathafnarinnar á sunnudaginn. Karl Hallgrímsson kom svo til okkar, en hann vann útvarpsþætti sem verða fluttir á Rás 2 á næstunni og bera heitið Röfl um mengi og magann á beljum og eru hluti af meistarrannsókn þar sem úrtakið er um sextíu dægurlagatextar íslenskra höfunda og gerði Karl eigindlega rannsókn á innihaldi þeirra, dró fram svipmyndir og viðhorf sem þar birtast til skólans, námsins og tilheyrandi þátta. Við fengum að lokum póstkort í dag frá Magnúsi R. Einarssyni. Kort dagsins segir af páskahaldinu á Spáni, en Magnús hefur dvalið alla dymbilvikuna í Alicante. Páskahaldið einkennist af íburðarmiklum skrúðgöngum, háværri tónlisti og skrautlegum búningum. Risastór og þung líkneski eru borin um stræti og torg alla dagana og gríðarlegur fjöldi manna tekur þátt í hátíðarhöldunum. Tónlist í þættinum í dag: Berum út dívanana/Stuðmenn(Jakob Frímann-Þórður Árnason) Öll þín tár / KK, Ólöf Arnalds og Önnu Jónu Son (Kristján Kristjánsson, Haraldur Ingi Þorleifsson og Ólöf Helga Arnalds) Fallinn / Tívolí (Stefán S. Stefánsson) Nú liggur vel á mér / Ingibjörg Smith og Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar (Óðinn G. Þórarinsson, texti Númi Þorbergsson) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Om Podcasten

Um litróf mannlífsins. Okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi. Alla virka daga milli kl. 11-12 á Rás 1. netfang: mannlegi@ruv.is Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.