Flugrán, fastir í lyftu og feita ríka fólkið fyrr á öldum

Í þessum fyrsta þætti af Þráðum rifjum við upp þegar króatískir flugræningjar millilentu á Keflavíkurflugvelli árið 1976 og stofnun sérsveitarinnar í kjölfarið. Við heyrum meðal annars hvernig Helgi H Jónsson fréttamaður lýsti atburðarásinni á þeim tíma og ræðum við Jón Bjartmarz um það hvernig og hvers vegna sérsveitin varð til, en hann var yfirmaður hennar frá 1987-1997. Svo festumst við í lyftu með forseta Íslands, forsætisráðherra, forseta Alþingis, forseta hæstaréttar og biskupsritara árið 1997. Við ræddum við Harald Henrysson forseta hæstaréttar á þeim tíma og Eddu Möller framkvæmdastjóra Skálholtsútgáfunnar sem kom mönnunum til bjargar. Við endum á pistli frá Kristjáni Bersa Ólafssyni frá 1977 um breytingar á holdarfari yfirstéttarinnar, áhrif auglýsinga á neyslu Íslendinga og setjum það í samhengi með Goddi prófessor við Listaháskóla Íslands. Umsjón: Atli Már Steinarsson og Ingvar Þór Björnsson

Om Podcasten

Atli Már Steinarsson og Ingvar Þór Björnsson stjórna tímaferðalagi sem takmarkast ekki við neitt nema forvitni og hvort gamlar spólur séu orðnar of snjáðar til að hægt sé að spila þær aftur. Er hægt að taka upp eldgamlan þráð og vinna sig aftur til nútíðar? Geta hlutirnir sem við sögðum einu sinni, kennt okkur eitthvað í dag? Kannski. En svo getur líka bara verið gaman að hlusta á gamlar sögur, skoðanir og hlæja að því hvernig allt var einu sinni. Hvort sem við missum þráðinn eða ekki. Umsjónarmenn: Atli Már Steinarsson og Ingvar Þór Björnsson.