HM '98 og stórsigur á Austur-Þýskalandi

Eftir sléttan mánuð fer fram heimsmeistaramótið í knattspyrnu karla og verður mótið í þetta skiptið haldið í Katar, sem hefur verið umdeilt svo vægt sé til orða tekið. Við förum því aftur til ársins 1998 og heimsmeistaramótsins það ár sem fram fór í Frakklandi og hlustum á klippu úr þættinum "Vinkill: Er líf eftir HM" sem kom út það ár í umsjá Kristínar Ólafsdóttur, þar sem rætt er við fótboltabullur á öldurhúsum bæjarins og setjum mótið í samhengi með Þórólfi Þórlindssyni prófessor emerítus sem var einmitt viðmælandi í þættinum fyrir aldarfjórðungi. Ekki nóg með það, þá rifjum við upp sögulegan sigur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á því austur-þýska árið 1975 með Herði Hilmarssyni sem spilaði leikinn. Umsjón: Atli Már Steinarsson og Ingvar Þór Björnsson

Om Podcasten

Atli Már Steinarsson og Ingvar Þór Björnsson stjórna tímaferðalagi sem takmarkast ekki við neitt nema forvitni og hvort gamlar spólur séu orðnar of snjáðar til að hægt sé að spila þær aftur. Er hægt að taka upp eldgamlan þráð og vinna sig aftur til nútíðar? Geta hlutirnir sem við sögðum einu sinni, kennt okkur eitthvað í dag? Kannski. En svo getur líka bara verið gaman að hlusta á gamlar sögur, skoðanir og hlæja að því hvernig allt var einu sinni. Hvort sem við missum þráðinn eða ekki. Umsjónarmenn: Atli Már Steinarsson og Ingvar Þór Björnsson.